Algengar tilfinningalegar afleiðingar hjá geranda

Gerandinn upplifir ýmislegt sem hann þarf að vinna með. Hann getur glímt við reiði gagnvart sjálfum sér og verið með sjálfsásakanir. Oft hefur gerandinn ekki hugmynd um hver ástæðan var fyrir framhjáhaldinu, hann upplifir sig gjarnan týndan og þunglyndan. Það er mjög mikilvægt að komast að því hvað varð til þess að hann leitaði út fyrir sambandið og tók ákvörðunina að taka skrefið til fulls. 

Samviskubit, skömm, reiði og þunglyndi brýst oft út hjá gerandanum sem vörn og hann dregur sig inn í skel. Hann ber oft fyrir sig minnisleysi því hann bælir niður tilfinningarnar og afneitar þeim því hann á erfitt með að játa ýmislegt fyrir makanum, en leyndarmál eru eins og bensín á þráhyggjuhugsanir þolandans. Hann verður oft reiður og óþolinmóður yfir endalausum spurningum þolandans og þolir oft illa hversu lítið persónulegt rými hann hefur fyrir sjálfan sig. Hann verður ringlaður eins og þolandinn, en hann þarf að taka afleiðingunum af því sem hann gerði. Gerandinn fær oft mikinn kvíða yfir því að þolandinn muni aldrei ná sér aftur né treysta honum.

Eins og hendi sé veifað þá upplifir gerandinn oft að hann vilji ekki missa makann sinn þrátt fyrir að hafa trúað því á meðan hann hélt framhjá að viðhaldið væri sálufélagi hans og hann vildi fórna hjónabandinu fyrir viðhaldið. Þrátt fyrir að hann vilji makann fremur en viðhaldið, þá finnur hann jafnvel fyrir saknaðartilfinningu til viðhaldsins, sem er óvelkomin á þessu stigi, og getur það komið fram í tilfinningum eins og ástarsorg. Þessa tilfinningu ber gerandinn oft einn því að ekki er hægt að tjá sig um þetta við makann sem liggur í sárum eftir gjörðir hans. Einnig fylgir þessari tilfinningu skömm; skömm yfir því að sakna einhvers sem hafði ásamt gerandanum svona slæmar afleiðingar fyrir parasambandið sem gerandinn er í.

Oft á gerandinn erfitt með að hugsa um sjálfan sig og gera eitthvað fyrir sig, því að samviskubitið gerir það verkum að honum finnst hann ekki eiga skilið að hafa það gott. Einnig er erfitt fyrir hann að líða vel á meðan maki hans er jafnvel niðurbrotinn og á þá gerandinn það til að sveiflast tilfinningalega með makanum.

Sektarkennd er eitt einkenni sem sækir að þeim sem gert hafa eitthvað á hlut annars einstaklings, þá er einstaklingurinn fullur eftirsjár og á erfitt með að fyrirgefa sjálfum sér. Þetta dregur úr lífsgæðum og biturð getur komið í staðinn fyrir lífsvilja. Í kjölfar biturðar getur komið einmanaleiki því þeir sem eru fullir af biturð hafa oft óþægilega nærveru og fara að forðast fólk. 

Þessi upptalning er alls ekki tæmandi og eru einkennin og viðbrögð mjög mismunandi.

En ég vona að þetta hafi hjálpað einhverjum.

Kær kveðja,

Ágústa Ósk


Hefur þú upplifað sterk áfallastreituviðbrögð eftir framhjáhald?

 

Ég ætla aðeins að halda áfram að fjalla um algengar afleiðingar fyrir þolandan eftir að hann kemst að framhjáhaldi makans. Eitt af því sem algengt er að viðkomandi finni fyrir eru áfallastreituviðbrögð.

Rannsakendur líkja viðbrögðum þolanda framhjáhalds við áfalli sem líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi veldur þeim sem verða fyrir því. Það telst til áfalls þegar sálrænu viðbrögðin fela í sér upplifun ótta, hjálparleysi eða hrylling samkvæmt greiningarkerfi geðsjúkdóma DSM-IV. Þeir atburðir sem falla inn í skilgreininguna um að áfall hafi átt sér stað eru meðal annars náttúruhamfarir, slys, stríð og líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi. Alvarleg áföll leiða oft til geðheilbrigðisvanda. Þunglyndi ástamt kvíðaröskun eru algengar afleiðingar en helsta geðröskunin sem er afleiðing áfalla er áfallastreituröskun (e. Post Traumatic Stress Disorder). Til að mælast með áfallastreituröskun þurfa nokkur atriði að vera til staðar sem þekkt eru í afleiðingum framhjáhalds. Um er að ræða endurupplifun atburðar, hliðrun frá hugsunum og atburðum sem viðkomandi tengir við áfallið og miklum einkennum ofurárvekni.

Einkennin geta varað í mánuði jafnvel nokkur ár eftir áfallið en eftir því sem tíminn líður verður lengra á milli þeirra. Einkennin fara þá að vara í styttri tíma í hvert sinn en ákafinn í hverju áfalli er það síðasta sem fer, það verður mjög lengi afskaplega ýkt. Til þess að einkennin teljist falla undir áfallastreituröskun þá verður að vera liðinn að minnsta kosti meira en mánuður frá áfalli og einkennin verða að skerða daglegt líf viðkomandi samkvæmt greiningarkerfinu DSM-IV.

Varðandi endurupplifun (e. re-experiencing) atburðar þá þarf viðkomandi að kannast við eitt af fimm einkennum til að teljast vera með áfallastreituröskun. Einkennin eru 1) minningar sem eru óvelkomnar um áfallið og valda vanlíðan, 2) martraðir sem tengjast áfallinu, 3) að upplifa tilfinningar og hegðun eins og áfallið væri að gerast aftur, 4) áreiti sem tengist áfallinu sem veldur vanlíðan eða 5) áreiti sem tengjast áfallinu sem veldur lífeðlisfræðilegum viðbrögðum.

Hliðrun frá hugsunum og atburðum eða doði (e. avoidance and numbing) hafa sjö undirflokka og þurfa einstaklingar að greinast með þrjú af sjö einkennum. Þau eru 1) forðast hugsanir, tilfinningar og samtöl sem tengjast áfallinu á einhvern hátt, 2) forðast staði, atburði eða fólk sem tengjast áfallinu, 3) eiga í erfiðleikum með að muna eftir áfallinu sjálfu eða vissum hlutum af því, 4) finna fyrir áhugaleysi á daglegum verkum, 5) forðast annað fólk, 6) geðsmunir takmarkaðir og 7) hafa litlar vonir til framtíðarinnar.

Loks skal nefna einkenni ofurárverkni (e. hyperarousal). Einkennin eru 1) svefnerfiðleikar, 2) pirringur, 3) eiga erfitt með að einbeita sér, 4) ofur mikil árvekni eða 5) mikil viðbrögð.

Mismunandi er hvort fólk fær sterk áfallastreituviðbrögð eftir framhjáhald eða önnur áföll en það sem er talið auka líkur á að manneskja fái og þrói með sér áfallastreitu er ef einstalkingurinn trúði því að heimurinn væri öruggur og parasambandið einnig. Ef einstaklingur hefur gríðarlega neikvæðar tilfinningar gagnvart sjálfum sér, heiminum og er ósveigjanlegur í skoðunum og hugmyndum er hann jafnframt líklegri til að þróa með sér sterk áfallastreituviðbrögð í kjölfar framhjáhalds af hálfu maka. Einnig ef einstaklingurinn er stjórnsamur sem lendir í áfallinu, það sem gerðist er svo innilega ekki eitthvað sem þolandinn gat haft stjórn á og fyrir stjórnsaman einstakling sem hefur yfirleitt hlutina og lífið á hreinu er þetta þungur biti að kyngja.

Það er umdeilt hvort framhjáhald geti valdið áfallastreituröskun því orðið röskun er mjög alvarlegt orð og eingöngu á valdi geðlækna að greina fólk með röskun. Upplifunin þarf strangt til tekið að fela í sér ,,near death experience" upplifun nálægt dauða. Hins vegar er óumdeilt að sterk áfallastreituviðbrögð eru mjög þekkt í kjölfar framhjáhalds hjá þolanda og geta viðbrögðin verið alvarleg og mikil þörf fyrir faglega hjálp til að komast í gegnum þau.

Næsta færlsa mun svo fjalla um algeng viðbrögð geranda framhjáhalds.

Kær kveðja,

Ágústa Ósk


Algeng viðbrögð þolandans við framhjáhaldi

Við það að framhjáhald verði hluti af sögu parasambandsins þá tekur sambandið oft mikum breytingum og getur það haft mjög eyðileggjandi áhrif á það, sérstaklega til að byrja með og ef ekki er í sambandinu unnið þá er erfitt að komast á ,,réttan" kjöl aftur. Í næstu tveim til þrem færslum á blogginu verður fjallað um viðbrögð þolandans annars vegar og gerandans hins vegar.

Viðbrögð þolandans

Viðbrögð þolandans og gerandans eru ólík en báðir aðilar glíma við erfiðar tilfinningar hvor á sinn hátt. Hjá þolandanum er þekkt að mikið magn af adrenalíni flæðir um líkamann sem setur af stað streituviðbrögð. Allt líkamskerfið er vakandi og ofur örvað og þannig verður það í mjög langan tíma. Vöðvar þenjast út, húðin verður ofur viðkvæm, sviti er í lófum og á líkama, andardráttur er ör og ónæmisviðbrögð verða óeðlilega mikil. Líkaminn er tilbúinn að taka við árás, eins og viðkomandi væri á flótta undan ljóni. Um 30% af þolendum finna fyrir þessum viðbrögðum í ýktu magni. 

Svefn getur orðið lítill og erfitt getur reynst að borða. Tilfinningar þolandans verða því oft mjög miklar, allt frá reiði til innri vanlíðunar. Þeir upplifa gjarnan skömm, þunglyndi, þróttleysi, afbrýðssemi og niðurlægingu. Einnig geta komið fram áfallastreituviðbrögð, dofi og afneitun. Þolandinn getur dregið sig í hlé frá maka sínum og forðast hann því hann er að sjá fyrir sér eða að endurupplifa hugsanir tengdar framhjáhaldinu. En þessi einkenni eiga sér flest stað við áfallastreituröskun. Það er mikilvægt að þekkja áfallaviðbrögð til þess að skilja tilfinningalegu viðbrögðin og þá hegðun sem fer af stað. Oft verður þolandinn einnig heltekinn af því að kryfja málið alla þá daga sem hann veit að makinn var að hitta þriðja aðilann, situr með dagatalið og fer yfir myndir til að reyna að átta sig á hvernig dagarnir voru á meðan makinn lifði tvöföldu lífi. Gríðarleg orka fer í þetta allt saman og veldur það miklum streitueinkennum.

Reynsla af framhjáhaldi getur sett heiminn á hvolf fyrir einstakling sem hefur í einfeldni sinni haldið að hann hefði einhverja stjórn á því sem gerist í lífinu. Þetta kemur heim og saman við áfallastreituröskunina, hvort sem hún er vegna framhjáhalds maka eða vegna ofbeldis sem hrifsar af viðkomandi allt sem hann treysti á. Þessir þættir eiga það sameiginlegt að eitthvað átti sér stað sem viðkomandi átti ekki von á, honum finnst hann missa stjórn á lífi sínu og getur það komið af stað miklum kvíða um öryggi hans og velferð í framtíðinni.

Annað sem breytist virkilega við framhjáhald er að trúnaðarbrestur verður og margs konar forsendur sem viðkomandi hefur gengið út frá bresta eins og til dæmis að makanum sé treystandi og að sambandið sé öruggt. Einnig að þolandinn hafi einhverja stjórn á því hvað makinn gerir. Einna verst er ef gerandinn viðurkennir einhvern hluta af framhjáhaldinu, til dæmis að hann hafi hitt þriðja aðila í nokkur skipti og að kossar hafi átt sér stað en ekkert meira. Gerandinn getur haldið því til streitu í einhvern tíma, svo líða kannski mánuðir þar til þolandinnn fréttir að kynlíf hafi átt sér stað og fær þá alla söguna. Þetta kallar fram tvöfalt sár í huga þolandans, annars vegar tengt framhjáhaldinu og hins vegar vegna lyganna og óheiðarleikans. Til lengri tíma litið þá geta lygarnar orðið það sem særði þolandann mest og verið það erfiðasta að glíma við í komandi ferli. Þetta getur kallað fram þá tilfinningu að þolandanum finnst í raun alveg ómögulegt að halda áfram í parasambandinu sem hann er í þrátt fyrir að viðhaldið sé út úr myndinni. Það er mjög mikilvægt að taka ekki neina ákvörðun stuttu eftir að komist er að framhjáhaldi vegna þeirra áhrifa sem framhjáhald hefur á starfssemi líkamans, afleiðingarnar eru þess eðlis að það er erfitt að taka rökrétta ákvörðun á meðan á þeim stendur.

Það getur verið afskaplega hjálplegt að komast að hjá ráðjafa á þessum tímapunkti því veröldin í raun gengur hreinlega ekki upp (dosn't make sense).

Vonandi hafið þið haft gang af þessum lestri... þangað til næst ;)

Kærleikskveðja,

Ágústa Ósk


Getur framhjáhald átt sér stað í góðum samböndum?

Oft er mikill munur á því sem fólk almennt telur vera rétt varðandi tiltekin málefni og svo staðreyndum máls. Slík er einmitt raunin þegar rætt er um eðli og orsakir framhjáhalds. Hér á eftir mun ég setja fram fullyrðingar sem eru algengar en engu að síður byggðar á ranghugmyndum og svo staðreyndir sem byggja á niðurstöðum rannsókna.

Þegar pör þurfa að horfast í augu við að framhjáhald er orðinn raunveruleiki í sambandi þeirra er gott að geta leitað svara. Skiptir þó máli hvaðan svörin koma því framhjáhald er viðkvæmt málefni og svo virðist sem allir hafi skoðun á því og vilji ráðleggja parinu í kjölfarið (þeir sem ekki hafa lent í þessum aðstæðum reynast oft hafa hvað sterkastar skoðanir).

Dæmi um ranghugmynd og raunveruleika eru:

- Ranghugmynd: Framhjáhald á sér aðeins stað í óhamingjusömum hjónaböndum eða parasamböndum.

- Staðreynd: Framhjáhald getur átt sér stað í góðum samböndum. Framhjáhald snýst oft ekki um ást heldur meira um spennuna sem felst í því að fara yfir mörk hins leyfilega og samþykkta.

 

- Ranghugmynd: Framhjáhald snýst yfirleitt aðeins um kynlíf.

- Staðreynd: Það sem oft dregur einstakling út í framhjáhald er hvernig hann speglar sig í aðdáunaraugum viðhaldsins. Annað sem spilar sterkt inn er að einstaklingurinn uppgötvar nýtt hlutverk sem elskhugi og ný tækifæri til að byggja upp nýtt samband.

 

- Ranghugmynd: Hinn ótrúi maki skilur alltaf eftir sig vísbendingar, þannig að ef maka hans grunar ekkert þá er hann í raun í afneitun, grefur höfuðið í sandinn og neitar að sjá það augljósa.

- Raunveruleiki: Mikill meirihluti framhjáhalda kemst aldrei upp. Sumir einstaklingar geta  hólfað líf sitt svo ,,vel” niður og þannig aðgreint tvöfalda lífið eða eru svo góðir lygarar að makar þeirra komast aldrei að neinu.

 

- Ranghugmynd: Einstaklingur, sem er að halda framhjá, sýnir minni áhuga á kynlífi heima fyrir.

- Raunveruleiki: Spennan, sem myndast við framhjáhaldið, getur aukið ástríðuna heima fyrir og gert kynlífið enn meira spennandi.

 

- Ranghugmynd: Einstaklingur sem heldur framhjá er ekki að ,,fá nóg” heima hjá sér.

- Raunveruleiki: Sannleikurinn er sá að hinn ótrúi er líklega ekki að gefa nóg. Staðreyndin er sú að maki sem gefur of lítið af sér er í meiri hættu á að halda fram hjá en sá sem gefur mikið.

 

- Ranghugmynd: Ótrúr maki finnur að öllu sem hinn makinn gerir.

- Raunveruleiki: Hann eða hún geta þvert á móti farið í hina áttina og verið alveg frábær til þess að koma í veg fyrir að framhjáhaldið uppgötvist. Þó er líklegt að viðkomandi einstaklingar séu mjög dæmandi og ljúfir til skiptis.  

 

Förum varlega þegar kemur að fullyrðingum varðandi framhjáhald, sýnum skilning og tillitssemi, hvort sem við erum að tala við geranda, þolanda eða þriðja aðila.  

Heimild: Dr Sherly Glass 


Af hverju heldur fólk framhjá?

 

Það er svo margt sem getur talist vera ástæða fyrir því að einstaklingur heldur framhjá maka sínum.  Ástæðurnar geta í raun verið jafn margar og einstaklingarnir. Allir geta misstigið sig á lífsleiðinni og allir geta bætt fyrir brot sín ef viljinn er fyrir hendi. Þrátt fyrir að ástæður geti verið ótalmargar þá eru nokkrar algengari en aðrar og rannsakendur nefna þær oft í umfjöllun um þetta efni..

Fyrst skal litið á hvað í persónulegu mynstri einstaklings er algengt að sjá hjá þeim sem halda framhjá. Þeir einstaklingar sem eiga erfitt með að eiga í djúpum samskiptum við aðra, þeir sem verða hugsjúkir um hluti, þeir sem hafa litla samvisku og eiga erfitt með að setja sig í spor annarra eru líklegri en aðrir til að halda framhjá.  Hið sama á við um þá sem leita eftir mikilli spennu og áhættu hvað varðar fjármál, lagamál og líkamlega útrás.

Fólk sem haldið er þunglyndi og kvíða er fremur í áhættuhópi og einnig þeir sem eru óöryggir með sjálfa sig og leita að utanaðkomandi aðdáun.

Þeir sem eru með óraunhæfa mynd af sambandi og verða því oft fyrir vonbrigðum leita frekar út fyrir sambandið til að finna hinn fullkomna maka. Einstaklingar með hegðunarvanda, mikið skap og tilfinningalega erfiðleika eru jafnframt líklegri en aðrir til að halda framhjá maka sínum.

Þeir sem eru siðblindir eiga auðvelt með að halda framhjá og þeir finna jafnframt ekkert fyrir afleiðingum þess. Fólk sem haldið er spennu-, kynlífs- og ástarfíkn er mun líklegra en aðrir til þess að halda framhjá.

Í raun hafa flest allar þessar ástæður einn samnefnara; skort á innilegu ástarsambandi við maka sem inniheldur nánd og opin samskipti. Af þessum sökum á makinn auðveldara með að aftengja sig og skortir þess vegna yfirsýn yfir skaðann sem mun verða af gjörðum hans.

Ef litið er til félagslegra ástæðna þá er ,,vinnustaðaframhjáhald” mjög algengt. Þessi tegund framhjáhalds er þess eðlis að ástarsamband þróast út frá vinasambandi. Með vinnustaðaframhjáhaldi er bæði átt við fólk á sama vinnustað eða fólk sem kynnist í kringum vinnuna, gæti einnig átt við þá sem vinna langtímum erlendis. Sambandið byrjar sakleysislega, einn og einn hádegisverðarfundur eða fólk vinnur nokkrum sinnum lengri vinnutíma saman. Svo er farið að spjalla um allt og ekkert, sem sagt ekki bara um vinnutengda hluti, deila persónulegum málum og fyrr en varir finnst fólki eins og það hafi fundið sálufélaga hvort í öðru. Sumir hugsa kannski á þessum tímapunkti að það sé í raun ekkert óeðlilegt að eiga vin af gagnstæðu kyni og deila þessum hlutum með hinum aðilanum. Það er reyndar rétt svo framarlega sem makinn veit um þennan vin eða þessa fundi. Þannig getur þú, lesandi góður, séð nú þegar hvort einhver í þínu lífi gæti síðar meir orðið ógn við samband þitt, því úr þessum vináttusamböndum geta þróast ástarsambönd og þá kemur það oft aftan að fólki. Þetta er mjög lúmskt og alveg þess virði að varast ef manni er annt um hjónaband sitt.  

Önnur félagsleg ástæða er að fullnægja er lítil í hjónabandinu, bæði andlega og líkamlega. Þau pör sem rífast mikið og skjóta kaldhæðnislega hvort á annað í tíma og ótíma eru viðkvæmari fyrir utanaðkomandi aðilum inn í samband sitt. Oft er annar aðilinn eða jafnvel báðir komnir með nóg og óafvitandi byrjaðir að leita annað. Sumir í þessum aðstæðum halda framhjá til að hafa útgönguleið út úr sambandinu. Aðrir verða hreinlega ástfangnir og í stað þess að ganga hreint til verks gagnvart maka sínum þreifa þeir fyrir sér með hinum aðilanum áður en þeir enda hjónabandið. Ef fólk endar svo hjónabönd sín og byrjar saman eiga þessi pör oft í erfiðleikum með traustið frá upphafi. Þessi hugsun ,,hún/hann hélt framhjá fyrrverandi maka, af hverju ætti hún/hann ekki að halda framhjá mér?” gerir sambandið viðkvæmt og oft á tíðum mjög erfitt.

Ein algeng ástæða þess að fólk heldur fram hjá er MÖGULEIKINN á því. Þetta á til dæmis við um viðskiptaferðir. ,,One night stand” á sér oft stað í þessum aðstæðum, fólk er að fá sér að drekka og skemmta sér, svo er daður og makinn fjarri. Í þessum aðstæðum myndast oft kynferðisleg spenna hjá fólki sem annars myndi ekki undir ,,venjulegum” kringumstæðum halda framhjá en af því að möguleikinn er fyrir hendi þá misstígur það sig.

Enn ein ástæða þess að fólk heldur fram hjá er að haldið hefur verið fram hjá því. Það er margt sem spilar inn í þessar aðstæður, t.d höfnunin sem einstaklingur verður fyrir við framhjáhald maka sem er yfirþyrmandi og leita sumir í huggun og samþykki annarsstaðar. Einnig vilja sumir hefna sín, leyfa makanum að þjást eins og þeir hafa þurft að þjást. Svo eru það enn aðrir sem vilja reyna að upplifa og skilja hvað það var sem hinn aðilinn upplifði við framhjáhaldið og hvað það gaf honum.

Netið og farsímar með ýmis konar snjallforritum hafa bæst við sem ógnun við sambönd. Með þessum tækjum gefast einstaklingum tækifæri til að stofna til sambanda utan hjónabandsins. Rannsakendur hafa komist að því að netið er sá vettvangur sem langflestir nota til að leita sér að kynlífsfélaga. Með tilkomu internetsins hefur meira borið á tilfinningalegu framhjáhaldi og reynist oft erfiðara að vinna úr slíku framhjáhaldi heldur en einnar nætur gamni þar sem hjartað er komið í spilið og sambandið snertir hið innra í manneskjunni.

Þessi listi er auðvitað ekki tæmandi og geta ástæður verið aðrar en nefndar hafa verið hér að ofan. En varðandi áframhaldandi vinnu í kjölfar framhjáhalds er eitt það mikilvægasta að gerandinn átti sig á hvaða ástæða varð til þess að hann tók þessa ákvörðun. Með því móti getur hann forðast að lenda í sömu aðstæðum aftur, unnið traust makans og komið út úr þessu sem heilbrigðari einstaklingur.

Kær kveðja þar til næst,

Ágústa Ósk  

 

 

 


Nýtt blogg ,,Eiga parasambönd líf eftir framhjáhald?"

Velkomin á nýtt blogg sem heitir ,,Eiga parasambönd líf eftir framhjáhald?"

Hér mun ég birta pistla, hugleiðingar, svara spurningum og fjalla um allt sem tengist framhjáhaldi og þeirri vinnu sem fylgir því að framhjáhald sé orðinn raunveruleiki í lífi einstaklinga. Ég mun aðallega byggja bloggið upp á rannsóknavinnu sem ég hef tileinkað mér varðandi nálgun mína á þessu efni (sem sagt með lestri á viðurkenndum rannsóknum og síðar meir er stefnan tekin á að gera íslenska rannsókn á efninu). Einnig fæ ég þekkingu mína úr þeim fjölmörgu bókum, greinum og öðru tengdu lesefni sem ég hef nálgast til að öðlast meiri þekkingu/skilning á framhjáhaldi. Ég mun nýta mér kennsluefni sem ég fór í gegnum þegar ég var í BA námi mínu í félagsráðgjöf og þann fróðleik sem mun opnast fyrir mér í meistaranáminu sem ég mun hefja 1. september 2014 við Háskóla Íslands í Fjölskyldumeðferð, einnig mun ég notast við þá reynslu sem ég á persónulega í tengslum við framhjáhald.

Ein af mínum stærstu hugsjónum er að geta hjálpað fólki sem hefur að geyma þessa erfiðu reynslu og lít ég á þetta blogg sem góðan vettvang til þess. Hér mun fólk hafa aðgang að mér, getur sent mér spurningar í pósti og ég mun eftir fremsta megni svara þeim spurningum. Ég sé líka fyrir mér að fá að birta eina og eina spurningu opinberlega hér á blogginu en það mun ég aldrei gera án samþykkis frá þeim sem sendi spurninguna inn og ef samþykki gefst mun ég alltaf breyta nöfnum og staðháttum til að virða persónuvernd í hvívetna. 

Ég mun vera fagleg en jafnframt gefa mér leyfi til að vera einlæg þegar við á. Þetta blogg verður ekki byggt upp á tilfinningaklámi enda er reynsla þeirra sem þekkja til framhjáhalds sú að ekki þarf að klámvæða tilfinningar til að gera þær oft á tíðum öfgafengnar, viðkvæmar og erfiðar. 

Tilhlökkun bærist innra með mér er ég hugsa til komandi tíma er varðar þetta blogg, vinnu mína með fólki og áframhaldandi námi.

Með kærleikskveðju,
Ágústa Ósk Óskarsdóttir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband