Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Nýtt blogg ,,Eiga parasambönd líf eftir framhjáhald?"

Velkomin á nýtt blogg sem heitir ,,Eiga parasambönd líf eftir framhjáhald?"

Hér mun ég birta pistla, hugleiðingar, svara spurningum og fjalla um allt sem tengist framhjáhaldi og þeirri vinnu sem fylgir því að framhjáhald sé orðinn raunveruleiki í lífi einstaklinga. Ég mun aðallega byggja bloggið upp á rannsóknavinnu sem ég hef tileinkað mér varðandi nálgun mína á þessu efni (sem sagt með lestri á viðurkenndum rannsóknum og síðar meir er stefnan tekin á að gera íslenska rannsókn á efninu). Einnig fæ ég þekkingu mína úr þeim fjölmörgu bókum, greinum og öðru tengdu lesefni sem ég hef nálgast til að öðlast meiri þekkingu/skilning á framhjáhaldi. Ég mun nýta mér kennsluefni sem ég fór í gegnum þegar ég var í BA námi mínu í félagsráðgjöf og þann fróðleik sem mun opnast fyrir mér í meistaranáminu sem ég mun hefja 1. september 2014 við Háskóla Íslands í Fjölskyldumeðferð, einnig mun ég notast við þá reynslu sem ég á persónulega í tengslum við framhjáhald.

Ein af mínum stærstu hugsjónum er að geta hjálpað fólki sem hefur að geyma þessa erfiðu reynslu og lít ég á þetta blogg sem góðan vettvang til þess. Hér mun fólk hafa aðgang að mér, getur sent mér spurningar í pósti og ég mun eftir fremsta megni svara þeim spurningum. Ég sé líka fyrir mér að fá að birta eina og eina spurningu opinberlega hér á blogginu en það mun ég aldrei gera án samþykkis frá þeim sem sendi spurninguna inn og ef samþykki gefst mun ég alltaf breyta nöfnum og staðháttum til að virða persónuvernd í hvívetna. 

Ég mun vera fagleg en jafnframt gefa mér leyfi til að vera einlæg þegar við á. Þetta blogg verður ekki byggt upp á tilfinningaklámi enda er reynsla þeirra sem þekkja til framhjáhalds sú að ekki þarf að klámvæða tilfinningar til að gera þær oft á tíðum öfgafengnar, viðkvæmar og erfiðar. 

Tilhlökkun bærist innra með mér er ég hugsa til komandi tíma er varðar þetta blogg, vinnu mína með fólki og áframhaldandi námi.

Með kærleikskveðju,
Ágústa Ósk Óskarsdóttir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband