Hefur þú upplifað sterk áfallastreituviðbrögð eftir framhjáhald?

 

Ég ætla aðeins að halda áfram að fjalla um algengar afleiðingar fyrir þolandan eftir að hann kemst að framhjáhaldi makans. Eitt af því sem algengt er að viðkomandi finni fyrir eru áfallastreituviðbrögð.

Rannsakendur líkja viðbrögðum þolanda framhjáhalds við áfalli sem líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi veldur þeim sem verða fyrir því. Það telst til áfalls þegar sálrænu viðbrögðin fela í sér upplifun ótta, hjálparleysi eða hrylling samkvæmt greiningarkerfi geðsjúkdóma DSM-IV. Þeir atburðir sem falla inn í skilgreininguna um að áfall hafi átt sér stað eru meðal annars náttúruhamfarir, slys, stríð og líkamlegt eða kynferðislegt ofbeldi. Alvarleg áföll leiða oft til geðheilbrigðisvanda. Þunglyndi ástamt kvíðaröskun eru algengar afleiðingar en helsta geðröskunin sem er afleiðing áfalla er áfallastreituröskun (e. Post Traumatic Stress Disorder). Til að mælast með áfallastreituröskun þurfa nokkur atriði að vera til staðar sem þekkt eru í afleiðingum framhjáhalds. Um er að ræða endurupplifun atburðar, hliðrun frá hugsunum og atburðum sem viðkomandi tengir við áfallið og miklum einkennum ofurárvekni.

Einkennin geta varað í mánuði jafnvel nokkur ár eftir áfallið en eftir því sem tíminn líður verður lengra á milli þeirra. Einkennin fara þá að vara í styttri tíma í hvert sinn en ákafinn í hverju áfalli er það síðasta sem fer, það verður mjög lengi afskaplega ýkt. Til þess að einkennin teljist falla undir áfallastreituröskun þá verður að vera liðinn að minnsta kosti meira en mánuður frá áfalli og einkennin verða að skerða daglegt líf viðkomandi samkvæmt greiningarkerfinu DSM-IV.

Varðandi endurupplifun (e. re-experiencing) atburðar þá þarf viðkomandi að kannast við eitt af fimm einkennum til að teljast vera með áfallastreituröskun. Einkennin eru 1) minningar sem eru óvelkomnar um áfallið og valda vanlíðan, 2) martraðir sem tengjast áfallinu, 3) að upplifa tilfinningar og hegðun eins og áfallið væri að gerast aftur, 4) áreiti sem tengist áfallinu sem veldur vanlíðan eða 5) áreiti sem tengjast áfallinu sem veldur lífeðlisfræðilegum viðbrögðum.

Hliðrun frá hugsunum og atburðum eða doði (e. avoidance and numbing) hafa sjö undirflokka og þurfa einstaklingar að greinast með þrjú af sjö einkennum. Þau eru 1) forðast hugsanir, tilfinningar og samtöl sem tengjast áfallinu á einhvern hátt, 2) forðast staði, atburði eða fólk sem tengjast áfallinu, 3) eiga í erfiðleikum með að muna eftir áfallinu sjálfu eða vissum hlutum af því, 4) finna fyrir áhugaleysi á daglegum verkum, 5) forðast annað fólk, 6) geðsmunir takmarkaðir og 7) hafa litlar vonir til framtíðarinnar.

Loks skal nefna einkenni ofurárverkni (e. hyperarousal). Einkennin eru 1) svefnerfiðleikar, 2) pirringur, 3) eiga erfitt með að einbeita sér, 4) ofur mikil árvekni eða 5) mikil viðbrögð.

Mismunandi er hvort fólk fær sterk áfallastreituviðbrögð eftir framhjáhald eða önnur áföll en það sem er talið auka líkur á að manneskja fái og þrói með sér áfallastreitu er ef einstalkingurinn trúði því að heimurinn væri öruggur og parasambandið einnig. Ef einstaklingur hefur gríðarlega neikvæðar tilfinningar gagnvart sjálfum sér, heiminum og er ósveigjanlegur í skoðunum og hugmyndum er hann jafnframt líklegri til að þróa með sér sterk áfallastreituviðbrögð í kjölfar framhjáhalds af hálfu maka. Einnig ef einstaklingurinn er stjórnsamur sem lendir í áfallinu, það sem gerðist er svo innilega ekki eitthvað sem þolandinn gat haft stjórn á og fyrir stjórnsaman einstakling sem hefur yfirleitt hlutina og lífið á hreinu er þetta þungur biti að kyngja.

Það er umdeilt hvort framhjáhald geti valdið áfallastreituröskun því orðið röskun er mjög alvarlegt orð og eingöngu á valdi geðlækna að greina fólk með röskun. Upplifunin þarf strangt til tekið að fela í sér ,,near death experience" upplifun nálægt dauða. Hins vegar er óumdeilt að sterk áfallastreituviðbrögð eru mjög þekkt í kjölfar framhjáhalds hjá þolanda og geta viðbrögðin verið alvarleg og mikil þörf fyrir faglega hjálp til að komast í gegnum þau.

Næsta færlsa mun svo fjalla um algeng viðbrögð geranda framhjáhalds.

Kær kveðja,

Ágústa Ósk


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband