Getur framhjáhald átt sér stað í góðum samböndum?

Oft er mikill munur á því sem fólk almennt telur vera rétt varðandi tiltekin málefni og svo staðreyndum máls. Slík er einmitt raunin þegar rætt er um eðli og orsakir framhjáhalds. Hér á eftir mun ég setja fram fullyrðingar sem eru algengar en engu að síður byggðar á ranghugmyndum og svo staðreyndir sem byggja á niðurstöðum rannsókna.

Þegar pör þurfa að horfast í augu við að framhjáhald er orðinn raunveruleiki í sambandi þeirra er gott að geta leitað svara. Skiptir þó máli hvaðan svörin koma því framhjáhald er viðkvæmt málefni og svo virðist sem allir hafi skoðun á því og vilji ráðleggja parinu í kjölfarið (þeir sem ekki hafa lent í þessum aðstæðum reynast oft hafa hvað sterkastar skoðanir).

Dæmi um ranghugmynd og raunveruleika eru:

- Ranghugmynd: Framhjáhald á sér aðeins stað í óhamingjusömum hjónaböndum eða parasamböndum.

- Staðreynd: Framhjáhald getur átt sér stað í góðum samböndum. Framhjáhald snýst oft ekki um ást heldur meira um spennuna sem felst í því að fara yfir mörk hins leyfilega og samþykkta.

 

- Ranghugmynd: Framhjáhald snýst yfirleitt aðeins um kynlíf.

- Staðreynd: Það sem oft dregur einstakling út í framhjáhald er hvernig hann speglar sig í aðdáunaraugum viðhaldsins. Annað sem spilar sterkt inn er að einstaklingurinn uppgötvar nýtt hlutverk sem elskhugi og ný tækifæri til að byggja upp nýtt samband.

 

- Ranghugmynd: Hinn ótrúi maki skilur alltaf eftir sig vísbendingar, þannig að ef maka hans grunar ekkert þá er hann í raun í afneitun, grefur höfuðið í sandinn og neitar að sjá það augljósa.

- Raunveruleiki: Mikill meirihluti framhjáhalda kemst aldrei upp. Sumir einstaklingar geta  hólfað líf sitt svo ,,vel” niður og þannig aðgreint tvöfalda lífið eða eru svo góðir lygarar að makar þeirra komast aldrei að neinu.

 

- Ranghugmynd: Einstaklingur, sem er að halda framhjá, sýnir minni áhuga á kynlífi heima fyrir.

- Raunveruleiki: Spennan, sem myndast við framhjáhaldið, getur aukið ástríðuna heima fyrir og gert kynlífið enn meira spennandi.

 

- Ranghugmynd: Einstaklingur sem heldur framhjá er ekki að ,,fá nóg” heima hjá sér.

- Raunveruleiki: Sannleikurinn er sá að hinn ótrúi er líklega ekki að gefa nóg. Staðreyndin er sú að maki sem gefur of lítið af sér er í meiri hættu á að halda fram hjá en sá sem gefur mikið.

 

- Ranghugmynd: Ótrúr maki finnur að öllu sem hinn makinn gerir.

- Raunveruleiki: Hann eða hún geta þvert á móti farið í hina áttina og verið alveg frábær til þess að koma í veg fyrir að framhjáhaldið uppgötvist. Þó er líklegt að viðkomandi einstaklingar séu mjög dæmandi og ljúfir til skiptis.  

 

Förum varlega þegar kemur að fullyrðingum varðandi framhjáhald, sýnum skilning og tillitssemi, hvort sem við erum að tala við geranda, þolanda eða þriðja aðila.  

Heimild: Dr Sherly Glass 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband