Algeng viðbrögð þolandans við framhjáhaldi

Við það að framhjáhald verði hluti af sögu parasambandsins þá tekur sambandið oft mikum breytingum og getur það haft mjög eyðileggjandi áhrif á það, sérstaklega til að byrja með og ef ekki er í sambandinu unnið þá er erfitt að komast á ,,réttan" kjöl aftur. Í næstu tveim til þrem færslum á blogginu verður fjallað um viðbrögð þolandans annars vegar og gerandans hins vegar.

Viðbrögð þolandans

Viðbrögð þolandans og gerandans eru ólík en báðir aðilar glíma við erfiðar tilfinningar hvor á sinn hátt. Hjá þolandanum er þekkt að mikið magn af adrenalíni flæðir um líkamann sem setur af stað streituviðbrögð. Allt líkamskerfið er vakandi og ofur örvað og þannig verður það í mjög langan tíma. Vöðvar þenjast út, húðin verður ofur viðkvæm, sviti er í lófum og á líkama, andardráttur er ör og ónæmisviðbrögð verða óeðlilega mikil. Líkaminn er tilbúinn að taka við árás, eins og viðkomandi væri á flótta undan ljóni. Um 30% af þolendum finna fyrir þessum viðbrögðum í ýktu magni. 

Svefn getur orðið lítill og erfitt getur reynst að borða. Tilfinningar þolandans verða því oft mjög miklar, allt frá reiði til innri vanlíðunar. Þeir upplifa gjarnan skömm, þunglyndi, þróttleysi, afbrýðssemi og niðurlægingu. Einnig geta komið fram áfallastreituviðbrögð, dofi og afneitun. Þolandinn getur dregið sig í hlé frá maka sínum og forðast hann því hann er að sjá fyrir sér eða að endurupplifa hugsanir tengdar framhjáhaldinu. En þessi einkenni eiga sér flest stað við áfallastreituröskun. Það er mikilvægt að þekkja áfallaviðbrögð til þess að skilja tilfinningalegu viðbrögðin og þá hegðun sem fer af stað. Oft verður þolandinn einnig heltekinn af því að kryfja málið alla þá daga sem hann veit að makinn var að hitta þriðja aðilann, situr með dagatalið og fer yfir myndir til að reyna að átta sig á hvernig dagarnir voru á meðan makinn lifði tvöföldu lífi. Gríðarleg orka fer í þetta allt saman og veldur það miklum streitueinkennum.

Reynsla af framhjáhaldi getur sett heiminn á hvolf fyrir einstakling sem hefur í einfeldni sinni haldið að hann hefði einhverja stjórn á því sem gerist í lífinu. Þetta kemur heim og saman við áfallastreituröskunina, hvort sem hún er vegna framhjáhalds maka eða vegna ofbeldis sem hrifsar af viðkomandi allt sem hann treysti á. Þessir þættir eiga það sameiginlegt að eitthvað átti sér stað sem viðkomandi átti ekki von á, honum finnst hann missa stjórn á lífi sínu og getur það komið af stað miklum kvíða um öryggi hans og velferð í framtíðinni.

Annað sem breytist virkilega við framhjáhald er að trúnaðarbrestur verður og margs konar forsendur sem viðkomandi hefur gengið út frá bresta eins og til dæmis að makanum sé treystandi og að sambandið sé öruggt. Einnig að þolandinn hafi einhverja stjórn á því hvað makinn gerir. Einna verst er ef gerandinn viðurkennir einhvern hluta af framhjáhaldinu, til dæmis að hann hafi hitt þriðja aðila í nokkur skipti og að kossar hafi átt sér stað en ekkert meira. Gerandinn getur haldið því til streitu í einhvern tíma, svo líða kannski mánuðir þar til þolandinnn fréttir að kynlíf hafi átt sér stað og fær þá alla söguna. Þetta kallar fram tvöfalt sár í huga þolandans, annars vegar tengt framhjáhaldinu og hins vegar vegna lyganna og óheiðarleikans. Til lengri tíma litið þá geta lygarnar orðið það sem særði þolandann mest og verið það erfiðasta að glíma við í komandi ferli. Þetta getur kallað fram þá tilfinningu að þolandanum finnst í raun alveg ómögulegt að halda áfram í parasambandinu sem hann er í þrátt fyrir að viðhaldið sé út úr myndinni. Það er mjög mikilvægt að taka ekki neina ákvörðun stuttu eftir að komist er að framhjáhaldi vegna þeirra áhrifa sem framhjáhald hefur á starfssemi líkamans, afleiðingarnar eru þess eðlis að það er erfitt að taka rökrétta ákvörðun á meðan á þeim stendur.

Það getur verið afskaplega hjálplegt að komast að hjá ráðjafa á þessum tímapunkti því veröldin í raun gengur hreinlega ekki upp (dosn't make sense).

Vonandi hafið þið haft gang af þessum lestri... þangað til næst ;)

Kærleikskveðja,

Ágústa Ósk


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband